Jörg Schmadtke er í viðræðum við forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool um að taka við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu.
Það er BBC sem greinir frá þessu en Julian Ward, sem tók við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu síðasta sumar þegar Michael Edwards hvarf á braut, er að færa sig yfir til Ajax í Hollandi í sumar.
Schmadtke var yfirmaður knattspyrnumála hjá Wolfsburg í rúmlega fjögur ár en hann lét af störfum hjá þýska félaginu í febrúar á þessu ári. Hann hefur einnig starfað hjá Köln og Hannover á ferlinum.
Liverpool ætlar sér stóra hluti á leikmannamarkaðnum í sumar og verður Schmadtke, fari svo að hann taki við starfinu, í lykilhlutverki þegar kemur að því að laða að nýja leikmenn til félagsins.