„Það var meiri ákefð í okkur í vörn og sókn,“ sagði Ísak Andri Sigurgeirsson, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 4:0-sigur liðsins á ÍBV í Bestu deildinni í fótbolta í dag.
Leikurinn var sá fyrsti hjá Stjörnunni undir stjórn Jökuls Elísabetarsonar og aðeins annar sigur liðsins á leiktíðinni.
„Við vorum nálægt þeim. Þetta eru Eyjamenn og við þurftum að mæta þeim í hörkunni. Við gerðum það vel. Mér fannst þetta sanngjörn staða. Við skorum átta mörk, fjögur rangstöðumörk. Þetta var toppleikur hjá öllu liðinu,“ sagði hann.
Ísak lagði upp þriðja mark leiksins á hinn kornunga Kjartan Már Kjartansson, en markið var það fyrsta sem Kjartan skorar í efstu deild.
„Það var geggjað. Hann er búinn að vera virkilega góður á æfingum og hann átti þetta mark skilið. Það var mjög skemmtilegt að taka þátt í því,“ sagði Ísak, en hann sá ekki atvikið þegar Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, fékk rautt spjald og Stjarnan fékk víti, sem fjórða markið kom úr.