Hljóðupptaka er VAR dró vítaspyrnudóm til baka (myndskeið)

PGMOL, samtök atvinnudómara, hafa gefið út hljóðupptöku af því þegar myndbandsdómarar í VAR-herbergi mæltu með því við dómara að draga til baka vítaspyrnudóm í leik Newcastle United og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í þarsíðustu viku.

Snemma leiks dæmdi Chris Kavanagh vítaspyrnu er honum virtist skot Joelinton, leikmanns Newcastle, fara í hönd Jakub Kiwior, leikmanns Arsenal.

VAR greip hins vegar inn í, skoðaði atvikið í þaula og fannst sem boltinn hafi farið af læri Kiwior og þaðan smálega í hönd hans. Kavanagh var beðinn um að kíkja á VAR-skjáinn og meta hvort honum þætti ekki réttast að draga vítaspyrnudóminn til baka.

Í spilaranum hér að ofan má fylgjast með því hvað fer milli Kavanagh, VAR-dómarans og VAR-aðstoðardómarans þegar verið er að meta atvikið.

Howard Webb, formaður PGMOL, var gestur Monday Night Football á Sky Sports í gærkvöldi og ræddi þar um vilja innan samtakanna að opinbera slíkar hljóðupptökur í meiri mæli í framhaldinu svo áhorfendum sé unnt að skilja ákvörðunarferli dómara betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert