Luton tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum umspils um sæti í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta með 2:0-heimasigri á Sunderland í undanúrslitum.
Sunderland vann fyrri leikinn 2:1, en Luton fagnaði 3:2-samanlögðum sigri í einvíginu.
Gabriel Osho skoraði fyrra markið á 10. mínútu og Tom Lockyer gerði annað markið á 43. mínútu.
Luton mætir annaðhvort Middlesbrough eða Coventry í úrslitaeinvíginu á Wembley, en Middlesbrough og Coventry gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik sínum.