Miðverðir á förum frá United

Phil Jones fer frá Manchester United eftir tólf ára dvöl.
Phil Jones fer frá Manchester United eftir tólf ára dvöl. AFP

Ensku knattspyrnumennirnir Phil Jones og Axel Tuanzebe, miðverðir Manchester United, róa á önnur mið þegar samningar þeirra renna út í sumar.

Þessu greinir ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano frá á Twitter-aðgangi sínum.

Jones hefur verið á mála hjá Man. United í að verða tólf ár, eða frá sumrinu 2011, og hefur ásamt markverðinum David de Gea verið hluti af aðalliðinu lengst af núverandi leikmönnum.

Dvöl Jones, sem er 31 árs gamall, hjá félaginu hefur markast af tíðum meiðslum en þrátt fyrir að hafa verið heill heilsu á yfirstandandi tímabili hefur hann ekki verið í áætlunum Erik ten Hag knattspyrnustjóra.

Undanfarin fjögur tímabil hefur Jones einungis leikið 13 leiki í öllum keppnum.

Hinn 25 ára gamli Tuanzebe er uppalinn hjá Man. United og á að baki 37 leiki í öllum keppnum frá árinu 2017.

Annars hefur hann verið lánaður út, þar á meðal þrisvar til Aston Villa, og var síðari hluta þessa tímabils á láni hjá Stoke City í ensku B-deildinni.

17 ára dvöl Tuanzebe hjá Man. United lýkur hins vegar í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert