Mín besta frammistaða fyrir Liverpool

Trent Alexander-Arnold og Curtis Jones, markaskorarar Liverpool í gærkvöldi, kátir …
Trent Alexander-Arnold og Curtis Jones, markaskorarar Liverpool í gærkvöldi, kátir eftir leikinn. AFP/Darren Staples

Curtis Jones, miðjumaður Liverpool, var að vonum hæstánægður eftir að hann skoraði tvö mörk í 3:0-sigri á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi.

Jones var tekinn tali af Sky Sports eftir leikinn þar sem hann var spurður hvort um bestu frammistöðu sína fyrir Liverpool á ferlinum hafi verið að ræða.

„Ég held það já, algjörlega. Þetta var leikur þar sem ég var mikið með boltann og skoraði auk þess tvö mörk,“ svaraði Englendingurinn.

Á fyrri hluta tímabilsins var hann lengi frá vegna meiðsla og átti svo erfitt með að koma sér inn í liðið. Undanfarið hefur hann hins vegar fengið tækifæri í byrjunarliði Liverpool og staðið sig afar vel er liðið hefur unnið sjö deildarleiki í röð.

„Ég var frá í 15 vikur og átti erfitt en nú er ég kominn til baka og er í byrjunarliðinu, skorandi mörk og hjálpandi liðinu. Ég reyni bara að halda áfram.

Við erum mikið að æfa skot á æfingum. Ég er að spila og aðlagast liðinu vel. Maður fær fleiri færi með því að koma sér í grennd við vítateiginn þannig að það er það sem ég er að gera.

Daginn fyrir leik erum við alltaf með skotkeppni á æfingum,“ bætti Jones við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert