Glöggum áhorfendum á leik Leicester City og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöldi hefur eflaust þótt glæsilegt mark Trents Alexander-Arnolds, leikmanns Liverpool, í 3:0-sigri liðsins, heldur kunnuglegt.
Sú tilfinning er ekki úr lausu lofti gripin þar sem Alexander-Arnold skoraði nákvæmlega eins mark, að vísu ögn nær markinu í það sinnið, í september árið 2019 þegar Liverpool lagði Chelsea að velli á Stamford Bridge.
Í báðum mörkum rennir Mohamed Salah boltanum til hliðar á Alexander-Arnold sem hamrar honum svo í markmannshornið.
Mörkin tvö má sjá í spilaranum hér að ofan, en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samstarfi við Símann Sport.