United áhugasamt um miðvörð Napoli

Kim Min-Jae í leik með Napoli gegn AC Milan í …
Kim Min-Jae í leik með Napoli gegn AC Milan í Meistaradeild Evrópu í síðasta mánuði. AFP/Gabriel Bouys

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur mikinn áhuga á því að festa kaup á suður-kóreska miðverðinum Kim Min-Jae, lykilmanni Ítalíumeistara Napoli.

Staðarblaðið Il Mattino greinir frá því að Kim hafi þegar samþykkt að ganga í raðir Man. United þar sem aðeins eigi eftir að ganga frá nokkrum atriðum.

Talksport greinir hins vegar frá því að samningaviðræður séu ekki komnar svo langt á veg en að áhuginn á miðverðinum sé sannarlega til staðar.

Hinn 26 ára gamli Kim lék frábærlega á sínu fyrsta tímabili hjá Napoli eftir að hafa verið keyptur frá tyrkneska félaginu á 15 milljónir punda síðastliðið sumar.

Hjálpaði hann liðinu að vinna sinn fyrsta Ítalíumeistaratitil í 33 ár og stóð sig sömuleiðis vel með landsliði Suður-Kóreu á HM 2022 í Katar í desember síðastliðnum, þar sem liðið komst í 16-liða úrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert