Byrjar næsta tímabil í þriggja leikja banni

Joey Barton.
Joey Barton. Ljósmynd/fleetwoodtownfc.com

Joey Barton, knattspyrnustjóri Bristol Rovers, hefur komið sér í hann krappan enn á ný þar sem enska knattspyrnusambandið úrskurðaði hann í dag í þriggja leikja bann fyrir framferði sitt í tapleik liðsins gegn Sheffield Wednesday í ensku C-deildinni í síðasta mánuði.

Barton hefur margsinnis verið úrskurðaður í bann vegna hátternis síns í gegnum tíðina. Sem leikmaður fékk hann meðal annars 12 leikja bann fyrir ofbeldi í garð leikmanna Manchester City þegar hann lék með QPR í ensku úrvalsdeildinni.

Í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu segir að Barton hafi gengist við því að hegðun hans eftir að honum var vikið af velli, í kjölfar mótmæla vegna marks sem Sheffield Wednesday skoraði, hafi verið óviðeigandi.

Veittist Barton að dómurum leiksins og lét þá heyra það í leikmannagöngum og dómaraherbergi.

Því hefur Barton verið úrskurðaður í þriggja leikja bann og mun hann taka það út í fyrstu þremur deildarleikjum Bristol Rovers á næsta tímabili. Einnig var honum gert að greiða 3.000 punda sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert