Coventry er komið í úrslit umspilsins um sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir 1:0-útisigur á Middlesbrough í seinni undanúrslitaleik liðanna í kvöld.
Gustavo Hamer skoraði sigurmarkið á 57. mínútu. Fyrri leikurinn endaði með markalausu jafntefli og vann Coventry því einvígið samanlagt 1:0.
Coventry var síðast í efstu deild árið 2001. Aðeins eru fimm ár síðan liðið fór upp úr D-deildinni og hefur upprisa félagsins því verið hröð og mikil.
Það verða því Coventry og Luton sem leika til úrslita um úrvalsdeildarsætið á Wembley en Luton hafði betur í einvígi sínu við Sunderland í undanúrslitunum.