Sjeikinn Jassim bin Hamad Al-Thani, stjórnarformaður eins stærsta banka Katars, hefur lagt fram nýtt og endurbætt tilboð í enska knattspyrnufélagið Manchester United.
Tilboðið lagði hann fram utan formlegra tilboðsglugga, en tilboðsgluggarnir hafa verið þrír talsins að beiðni núverandi eigenda, hinnar bandarísku Glazer-fjölskyldu.
Sjeikinn hefur ásamt Ineos Group, sem er í eigu Sir Jim Ratcliffe, stærsta einstaka landeiganda á Íslandi, lagt fram tilboð í öllum þremur tilboðsgluggum. Þriðju tilboðin lögðu þeir fram í lok apríl.
Samkvæmt BBC Sport hefur Al-Thani lagt fram nýtt tilboð sem kveður á um 100 prósenta yfirtöku, hreinsun á öllum skuldum Man United og sérstakan sjóð tileinkaðan félaginu og samfélaginu í grennd.
Þriðja tilboð Ratcliffe frá því í lok apríl er sagt ná til 50 prósenta eignarhalds, sem myndi gera Glazer-fjölskyldunni kleift að eiga áfram helmingshlut í félaginu.
Enskir fjölmiðlar hafa slegið því fram undanfarnar vikur að fjölskyldunni hafi litist best á þriðja tilboð Ratcliffes en Telegraph greinir frá því að nýtt tilboð Al-Thani sé lokatilboð frá honum. Glazer-fjölskyldan þurfi einfaldlega að samþykkja eða hafna því með engu svigrúmi fyrir frekari samningaviðræður.