Argentínski knattspyrnumaðurinn Lisandro Martínez fær góða launahækkun ef hann skrifar undir nýjan samning við Manchester United, en enska félagið er að undirbúa nýtt samningstilboð eftir gott fyrsta tímabil varnarmannsins á Englandi.
Martínez gekk í raðir Manchester United frá Ajax í Hollandi fyrir leiktíðina og skrifaði undir samning til ársins 2027. Félagið vill lengja þann samning og hækka leikmanninn í launum í leiðinni.
Leikmaðurinn er frá keppni um þessar mundir, vegna meiðsla sem hann varð fyrir í 2:2-jafnteflinu gegn Sevilla í Evrópudeildinni í síðasta mánuði. Leikur hann ekki meira á leiktíðinni.
Fram að því hafði hann verið einn besti leikmaður United á leiktíðinni og heillað marga með spilamennsku sinni. Samkvæmt Sky er sá argentínski himinlifandi með dvöl sína í Manchester til þessa og vill skrifa undir nýjan samning.