Hækkar í launum eftir eitt ár í Manchester

Lisandro Martínez hefur heillað marga á sínu fyrsta tímabili í …
Lisandro Martínez hefur heillað marga á sínu fyrsta tímabili í Manchester. AFP/Oli Scarff

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lisandro Martínez fær góða launahækkun ef hann skrifar undir nýjan samning við Manchester United, en enska félagið er að undirbúa nýtt samningstilboð eftir gott fyrsta tímabil varnarmannsins á Englandi.

Martínez gekk í raðir Manchester United frá Ajax í Hollandi fyrir leiktíðina og skrifaði undir samning til ársins 2027. Félagið vill lengja þann samning og hækka leikmanninn í launum í leiðinni.

Leikmaðurinn er frá keppni um þessar mundir, vegna meiðsla sem hann varð fyrir í 2:2-jafnteflinu gegn Sevilla í Evrópudeildinni í síðasta mánuði. Leikur hann ekki meira á leiktíðinni.

Fram að því hafði hann verið einn besti leikmaður United á leiktíðinni og heillað marga með spilamennsku sinni. Samkvæmt Sky er sá argentínski himinlifandi með dvöl sína í Manchester til þessa og vill skrifa undir nýjan samning.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert