Howe: „Þetta verður góð áskorun“

Eddie Howe knattspyrnustjóri Newcastle.
Eddie Howe knattspyrnustjóri Newcastle. AFP/Justin Tallis

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle í ensku úrvalsdeildinni, hefur hvatt lið sitt til að klára tímabilið með stæl og tryggja sig í Meistaradeild Evrópu. Newcastle tekur á móti Brighton í gríðarlega mikilvægum leik í kvöld.

Eftir frábært tímabil hjá Newcastle hefur tap gegn Arsenal og jafntefli gegn Leeds gefið Liverpool von um að ná að stela Meistaradeildarsætinu af Newcastle. Liðsmenn Eddie Howe hafa þetta í sínum höndum og nægir að vinna síðustu þrjá leiki sína til að tryggja sér 3. sæti deildarinnar.

Leikjaprógram Newcastle er þó ekki auðvelt. Liðið mætir Brighton á heimavelli í kvöld, þá mætir það Leicester á heimavelli næsta mánudag og endar síðan tímabilið á heimsókn til London þar sem það mætir Chelsea.

„Það er risastórt fyrir okkur að þetta sé í okkar höndum, þú vilt að það sé þannig. Við höfum unnið fyrir því og erum mjög ánægðir með að það sé þannig.“ sagði Howe.

„Leikmennirnir hafa spilað frábærlega fyrir mig allt tímabilið, samheldnin og andinn hefur komið okkur langt og það hjálpar líka að við erum með frábæra leikmenn. Heimavöllurinn okkar hefur verið vígi og stuðningurinn á heimavelli hefur verið stórkostlegur. Við erum vongóðir að við getum unnið næstu tvo leiki á heimavelli og komið okkur þannig í frábæra stöðu í deildinni.

Við eigum erfiðan leik í kvöld á móti Brighton, liði sem er með frábæran knattspyrnustjóra í Roberto De Zerbi. Það sjá allir hans merki á þessu liði, hvernig það spilar fótbolta er frekar einstakt og þetta verður góð áskorun fyrir okkur.“ sagði Howe enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert