Jürgen Klopp í bann

Jürgen Klopp er á leiðinni í bann.
Jürgen Klopp er á leiðinni í bann. AFP/Oli Scarff

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann fyrir ummæli sem hann lét falla eftir leik Liverpool og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.

Klopp var ekki ánægður með störf Paul Tierney dómara í leiknum á móti Tottenham en Tierney gaf Klopp gult spjald þegar sá síðarnefndi fagnaði sigurmarki Liverpool með því að ögra fjórða dómara leiksins. Klopp hélt því fram að Tierney hafi sagt við hann að hann vildi gefa honum rautt en að fjórði dómarinn hafi mælt með gula spjaldinu.

Enska knattspyrnusambandið ákærði Klopp fyrir þessi ummæli og fyrir að gefa í skyn hlutdrægni dómara og efast um heiðarleika hans.

Nú hefur enska knattspyrnusambandið úrskurðað Klopp í tveggja leikja bann og sektað hann um 75.000 pund sem jafngildir rúmum 13 milljónum króna. Fyrsti leikur bannsins skal tekinn út strax en seinni leikurinn verður skilorðsbundinn út tímabilið 2023/2024.

Þetta þýðir að Klopp verður í banni þegar Liverpool tekur á móti Aston Villa á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert