Newcastle í afar góðri stöðu

Dan Burn fagnar með samherjum og áhorfendum eftir að hafa …
Dan Burn fagnar með samherjum og áhorfendum eftir að hafa komið Newcastle í 2:0. AFP/Oli Scarff

Newcastle steig í kvöld mikilvægt skref í átt að sæti í Meistaradeild Evrópu í fótbolta með því að sigra Brighton, 4:1, í ensku úrvalsdeildinni.

Deniz Undav varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 22. mínútu, sem kom Newcastle yfir, og Dan Burn bætti við marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Kieran Trippier.

Undav kom Brighton aftur inn í leikinn með því að skora réttu megin á 51. mínútu, 2:1, en Callum Wilson tryggði Newcastle sigurinn með marki í byrjun uppbótartímans, 3:1, og Bruno Guimaraes bætti um betur með marki mínútu síðar.

Newcastle er þá komið með 69 stig í þriðja sætinu og á tvo leiki eftir. Manchester United er með 66 stig og á þrjá leiki eftir og Liverpool er með 65 stig og á tvo leiki eftir. Brighton er síðan í sjötta sætinu með 58 stig og á nú litla möguleika á að komast ofar en það.

Tvö þessara liða komast í Meistaradeildina og Newcastle nægir að vinna Leicester á mánudaginn til að gulltryggja sér sætið þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert