Aaron Ramsdale, markvörður Arsenal, hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við enska úrvalsdeildarfélagið.
Ramsdale gekk til liðs við Arsenal frá Sheffield United sumarið 2021 og hefur staðið sig mjög vel í marki liðsins síðan. Hann hefur unnið sér sæti í enska landsliðinu þar sem hann virðist reyndar vera á eftir Jordan Pickford, markverði Everton, í goggunarröðinni hjá Gareth Southgate landsliðsþjálfara Englands.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, sagðist vera gríðarlega ánægður með að félagið hafi náð samningum við Ramsdale um áframhaldandi samstarf.
„Við erum öll svo glöð með að Aaron hefur skrifað undir nýjan samning. Hvernig hann hefur þróað leik sinn á síðustu tveimur árum hefur verið stórkostlegt. Það er frábært að við séum að að halda áfram að byggja lið okkar á ungum og hæfileikaríkum leikmönnum.“ sagði Arteta eftir að Ramsdale skrifaði undir samninginn.
Ramsdale sagði sjálfur að hann væri stoltur af sjálfum sér og þakklátur félaginu fyrir samninginn.
„Ég er gríðarlega stoltur, þetta er eitthvað sem ég hef unnið fyrir lengi. Það skiptir ekki máli hvort þú hafir verið hjá klúbbnum í mánuð eða fjögur ár, þú vilt alltaf fá næsta samning. Að fá nýjan samning eftir tvö ár er frábært fyrir mig, nú get ég einbeitt mér að fótboltanum og vonandi fæ ég annan samning eftir nokkur ár og get þá haldið áfram að lifa drauminn með þessu frábæra félagi.“ sagði Ramsdale við heimasíðu Arsenal eftir að hafa skrifað undir.