Útlit er fyrir að Marcus Rashford missi af hinum mikilvæga leik Manchester United gegn Bournemouth á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun.
Rashford hefur verið tæpur vegna meiðsla en hefur æft með liðinu alla vikuna. Erik ten Hag knattspyrnustjóri sagði á fréttamannafundi rétt í þessu að framherjinn væri veikur í dag og því væri hætta á að hann yrði ekki með á morgun af þeim sökum.
Ten Hag staðfesti að miðvörðurinn Raphael Varane væri orðinn leikfær og þá væru góðar líkur á að Scott McTominay kæmi aftur inn í hópinn eftir meiðsli.
Manchester United er í baráttu við Newcastle og Liverpool um þriðja og fjórða sætið, sem gefa keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu, og sigur í Bournemouth á morgun kæmi liðinu í mjög góða stöðu.