Robertson: Breyttum skipulaginu og strákarnir fengu sjálfstraust

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Símanum Sport, ræddi við Andrew Robertson, vinstri bakvörð Liverpool um tímabilið hingað til og baráttuna um Meistaradeildarsæti.

Eftir að hafa verið afar óstöðugt stærstan hluta tímabils hefur Liverpool unnið sjö deildarleiki í röð.

Tómas Þór spurði Robertson hvað hafi breyst og nefnir hann 2:2-jafntefli við Arsenal sem ákveðinn vendipunkt.

„Við breyttum leikskipulaginu aðeins og strákarnir hafa öðlast meira sjálfstraust. Þegar við lentum tveimur mörkum undir gegn Arsenal frammi fyrir stuðningsmönnum okkar urðu þeir ögn neikvæðir.

Mér finnst að þar hafi botninum verið náð og leiðin hlaut að liggja upp á við. Í seinni hálfleiknum börðumst við hver fyrir annan,“ sagði skoski bakvörðurinn.

Spjall Robertsons og Tómasar Þórs má sjá í spilaranum hér að ofan, en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samstarfi við Símann Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert