Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði í dag að á morgun yrðu miklar tilfinningar á Anfield þegar lið hans mætir Aston Villa því fjórir frábærir leikmenn liðsins myndu þar kveðja stuðningsfólk félagsins.
James Milner, Roberto Firmino, Naby Keita og Alex Oxlade-Chamberlain fara allir frá Liverpool eftir tímabilið og leikurinn við Aston Villa er síðasti heimaleikurinn. Fyrr í dag staðfesti Klopp að Firmino yrði í hópnum eftir að hafa misst af sex leikjum vegna meiðsla.
„Tveir þeirra voru hér þegar ég kom, Milly og Bobby, og allt það góða sem hefur gerst hjá félaginu undanfarin ár hefði aldrei átt sér stað án þeirra.
Ox bættist í hópinn og síðan Naby. Ox var óheppinn, meiddist illa á slæmum tímum, en hann er frábær náungi. Fólk minnist Naby sem leikmanns sem meiddist oft, en hann tók þátt í nokkrum afar mikilvægum leikjum og spilaði vel. Við elskum þessa leikmenn en í atvinnufótbolta varir ekkert að eilífu," sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.