Við munum ekki snúa við honum baki

Ivan Toney skorar eitt af 20 mörkum sínum í ensku …
Ivan Toney skorar eitt af 20 mörkum sínum í ensku úrvalsdeildinni í vetur. AFP/Glyn Kirk

Thomas Frank, knattspyrnustjóri Brentford, segir að enska félagið muni ekki snúa baki við framherjanum Ivan Toney þrátt fyrir átta mánaða keppnisbann hans og muni aðstoða hann við að komast á beina braut í lífinu.

Toney hefur verið úrskurðaður í átta mánaða bann og sektaður um 50 þúsund pund fyrir að brjóta reglur enska knattspyrnusambandsins um þátttöku í veðmálum á knattspyrnuleiki.

Hann má ekki spila á ný með Brentford fyrr en 17. janúar á næsta ári en Toney er þriðji markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar á tímabilinu sem er að ljúka með 20 mörk fyrir Lundúnaliðið. Aðeins Erling Haaland, með 36 mörk, og Harry Kane, með 27, hafa skorað fleiri mörk.

„Framtíð hans er hjá Brentford, það er engin spurning. Við bíðum eftir nánari upplýsingum um hvað hann má gera á meðan bannið stendur, sérstaklega fyrstu fjóra mánuðina. Eitt er á hreinu, við munum gera allt fyrir hann sem í okkar valdi stendur, styðja hann og hafa góðar gætur á andlegu hliðinni,“ sagði Frank við BBC.

„Hann gerði mistök, en við verðum að vera til staðar fyrir hann og ætlum að gera það. Við þurfum bara að fá að vita hvað við megum gera. Hann er ekki bara fótboltamaður, heldur maður sem á sambýliskonu, ung börn, foreldra, ættingja og vini, og hann hefur verið mikið í sviðsljósinu,“ sagði danski knattspyrnustjórinn.

Veðmálin sem Toney er nú refsað fyrir áttu sér stað á árunum 2017 til 2021 en á þeim tíma var hann leikmaður með Scunthorpe, Wigan, Peterborough og loks Brentford.

Toney missir af tveimur síðustu leikjum Brentford á tímabilinu, gegn Tottenham og Manchester City, þar sem bannið hefur þegar tekið gildi en Frank sagði að hann hefði hvort eð er ekki verið með í þeim vegna tognunar í læri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert