Everton bjargaði gríðarlega mikilvægu stigi með lokaspyrnu leiksins þegar Yerry Mina tryggði liðinu jafntefli á móti Wolves í næst síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag. Lokatölur urðu 1:1.
Mark Wolves kom á 34. mínútu en það skoraði Suður-Kóreu maðurinn Hee-Chan Hwang en hann skoraði eftir undirbúning Spánverjans Adama Traore. Eftir flott skyndisókn þá keyrði Traore inn á teiginn og lét vaða að marki, Jordan Pickford varði skotið en frákastið barst til Hwang sem kláraði færi sitt vel.
Á níundu mínútu uppbótartíma kom jöfnunarmark frá Everton. Demarai Gray átti þá sendingu fyrir markið sem Michael Keane skallaði fyrir Yerry Mina sem kom boltanum í netið. Gæti þetta mark orðið gríðarlega mikilvægt fyrir Everton sem berst fyrir lífi sínu í deildinni.
Eftir leikinn er Wolves í 13. sæti með 41 stig en Everton er í 17. sæti með 33 stig, tveimur stigum frá fallsæti. Rétt er þó að geta þess að liðin í kringum Everton eiga öll inni leik á þá bláu.
Fulham og Crystal Palace gerðu jafntefli í dag, 2:2 en leikurinn fór fram á Craven Cottage, heimavelli Fulham.
Crystal Palace komst yfir í leiknum með marki frá Odsonne Edouard á 34. mínútu. Þá var komið að Aleksandar Mitrovic, framherja Fulham, en hann skoraði tvívegis fyrir heimamenn. Fyrra mark hans kom á fimmtu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og það seinna kom á 61. mínútu þegar Serbinn skoraði úr vítaspyrnu. Gestirnir jöfnuðu á 83. mínútu þegar Joel Ward skoraði.
Eftir leikinn er Fulham í 10. sæti deildarinnar með 52 stig en Crystal Palace er í 11. sæti með 44 stig.