Liverpool og Aston Villa skildu jöfn, 1:1, þegar liðin áttust við í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag. Roberto Firmino jafnaði metin fyrir Liverpool seint í leiknum í sínum síðasta heimaleik fyrir liðið.
Leikurinn fór rólega af stað en eftir 20 mínútur dró til tíðinda þegar Aston Villa fékk dæmda vítaspyrnu.
Ollie Watkins slapp þá einn í gegn, Ibrahima Konaté reyndi að elta hann uppi en felldi hann innan vítateigs.
Watkins steig sjálfur á vítapunktinn á 22. mínútu en skaut framhjá markinu.
Stuttu síðar, á 27. mínútu, náði Villa hins vegar forystunni. Douglas Luiz átti þá frábæra fyrirgjöf á Jacob Ramsey sem læddist fyrir aftan Trent Alexander-Arnold á fjærstönginni og skoraði með viðstöðulausu, hnitmiðuðu skoti niður í fjærhornið af stuttu færi.
Stuttu fyrir leikhlé slapp Ramsey einn í gegn eftir vel útfærða aukaspyrnu, náði skoti úr vítateignum en Alisson gerði afar vel í að koma út á móti og verja skotið.
Luis Díaz átti hættulegustu tilraun Liverpool undir lok fyrri hálfleiks en skalli hans eftir fyrirgjöf Jordans Hendersons fór framhjá markinu.
Villa leiddi því verðskuldað með einu marki þegar flautað var til leikhlés.
Eftir tæplega klukkutíma leik virtist Cody Gakpo vera að jafna metin fyrir Liverpool þegar hann skoraði af stuttu færi í kjölfar þess að Ezri Konsa hafði á marklínu frá Ibrahima Konaté.
Eftir að hafa ráðfært sig við VAR-skjáinn ákvað John Brooks, dómari leiksins, að dæma markið af vegna rangstöðu í aðdragandanum.
Tæpum stundarfjórðungi fyrir leikslok fékk Alexander-Arnold gott skotfæri á vítateigslínunni eftir sendingu Cody Gakpo en skotið beint á Emi Martínez í marki Villa.
Það var svo einni mínútu fyrir leikslok sem varamaðurinn Roberto Firmino jafnaði metin fyrir Liverpool í sínum síðasta heimaleik fyrir liðið, en hann rær á önnur mið í sumar.
Salah átti þá magnaða utanfótarsendingu frá hægri á Firmino sem skoraði með viðstöðulausu skoti á lofti af stuttu færi.
Liverpool reyndi hvað það gat að knýja fram jöfnunarmark en hafði ekki erindi sem erfiði. Niðurstaðan því 1:1-jafntefli.
Liverpool er áfram í fimmta sæti deildarinnar, nú með 66 stig. Villa er í sjöunda sæti með 58 stig.
Man. United gerði góða ferð til Bournemouth og lagði heimamenn að velli, 1:0.
Sigurmarkið kom strax á níundu mínútu og það skoraði brasilíski varnartengiliðurinn Casemiro með laglegu skoti á lofti.
Eftir sigurinn er Man. United með 69 stig í fjórða sæti, líkt og Newcastle United í þriðja sæti.
Liverpool á eftir að spila einn leik í deildinni á tímabilinu en Man. United og Newcastle tvo. Meistaradeildarsæti eru því innan seilingar fyrir bæði lið.