Mbeumo sá um Tottenham

Bryan Mbeumo fagnar öðru marki sínu í dag.
Bryan Mbeumo fagnar öðru marki sínu í dag. AFP/Glyn Kirk

Brentford vann sterkan endurkomusigur á Tottenham Hotspur, 3:1, þegar liðin áttust við í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í hádeginu í dag.

Leikið var á Tottenham Hotspur-vellinum í Lundúnum og kom Harry Kane heimamönnum yfir eftir aðeins átta mínútna leik.

Markið var glæsilegt þar sem Dejan Kulusevski renndi aukaspyrnu til hliðar á Kane sem hamraði boltann upp í samskeytin.

Tottenham leiddi 1:0 í leikhléi en snemma í síðari hálfleik jafnaði Bryan Mbeumo metin þegar hann lagði boltann í netið við vítateigslínuna eftir sendingu Yoane Wissa.

Eftir rúmlega klukkutíma leik var Mbeumo aftur á ferðinni. Hann fékk þá frábæra sendingu frá Aaron Hickey og lagði boltann í fjærhornið úr nokkuð þröngu færi hægra megin í vítateignum.

Skömmu fyrir leikslok innsiglaði Wissa svo sigurinn þegar hann fékk sendingu frá Mbeumo innan vítateigs og skoraði af stuttu færi eftir hræðileg mistök Oliver Skipp rétt fyrir framan eigin vítateig.

Tveggja marka sigur Brentford því niðurstaðan.

Liðið er áfram í níunda sæti, nú með 56 stig en Tottenham er í sjöunda sæti með 57 stig. Brentford á því enn smá möguleika á Evrópusæti þegar liðið á einn leik eftir í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert