Brighton í Evrópukeppni í fyrsta skipti

Brighton tekur þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn á næsta …
Brighton tekur þátt í Evrópukeppni í fyrsta sinn á næsta tímabili. AFP/Glyn Kirk

Brighton & Hove Albion hafði betur gegn Southampton, 3:1, þegar liðin áttust við í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag.

Með sigrinum tryggði Brighton sér sæti í Evrópukeppni, þar sem liðið mun á næsta tímabili taka þátt í fyrsta skipti í 122 ára sögu félagsins.

Hinn 18 ára gamli Evan Ferguson skoraði tvívegis í fyrri hálfleik fyrir heimamenn og sá þannig til þess að staðan væri 2:0 fyrir Brighton í leikhléi.

Eftir tæplega klukkutíma leik minnkaði Mohamed Elyounoussi muninn fyrir Southampton.

Um miðjan síðari hálfleik skoraði Pascal Gross svo þriðja mark Brighton og innsiglaði þannig sigurinn.

Brighton fór með sigrinum aftur upp í sjötta sæti deildarinnar, sem gefur sæti í Evrópudeildinni, þar sem liðið er nú með 61 stig.

Neðst getur Brighton hafnað í sjöunda sæti, sem gefur sæti í Sambandsdeild UEFA.

Southampton var þegar fallið og lýkur tímabilinu í botnsæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert