West Ham tók á móti Leeds í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag og endaði leikurinn með sigri West Ham, 3:1.
Eftir leikinn er West Ham í 15. sæti deildarinnar með 38 stig en Leeds er í 18. sæti með 30 stig, tveimur stigum á eftir Everton þegar ein umferð er eftir af deildinni.
Það voru gestirnir í Leeds sem komust yfir í leiknum á 17. mínútu þegar Spánverjinn Rodrigo skoraði með góðu skoti eftir langt innkast. Declan Rice jafnaði leikinn á 32. mínútu eftir sendingu frá Jarrod Bowen. Bowen skoraði svo sjálfur á 72. mínútu og kom West Ham yfir. Það var svo Argentínumaðurinn Manuel Lanzini sem að skoraði þriðja mark West Ham í uppbótartíma eftir frábæran undirbúning hjá Lucas Paqueta.
Skelfileg úrslit fyrir Leeds sem þarf að vinna síðasta leik sinn í deildinni og treysta á að Everton tapi leik sínum. Leeds mætir Tottenham á heimavelli og Everton mætir Bournemouth á heimavelli í lokaumferðinni.