Manchester City tók á móti Chelsea í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Leikurinn fór fram á heimavelli Manchester City og heimamenn stilltu upp varaliði sínu en vann engu að síður slakt Chelsea lið, 1:0.
Eftir leikinn er City á toppi deildarinnar með 88 stig en Chelsea er í 12. sæti með 43 stig.
Manchester City varð enskur meistari í gær eftir að Arsenal tapaði fyrir Nottingham Forest og það sást á uppstillingu Pep Guardiola að titillinn væri í höfn. Hann gerði níu breytingar á liðinu frá sigurleiknum gegn Real Madrid í vikunni, aðeins Kyle Walker og Manuel Akanji héldu sæti sínu í liðinu.
Eina mark leiksins skoraði Argentínumaðurinn Julian Alvarez á 12. mínútu þegar hann skoraði með góðu skoti eftir flottan undirbúning hjá ungstirninu Cole Palmer.
Alvarez kom boltanum svo aftur í netið í síðari hálfleik en Ryad Mahrez hafði tekið boltann með hendinni fyrr í sókninni og dæmdi VAR markið af.
Eftir leik var mikil sigurhátíð og fór bikarinn á loft við mikinn fögnuð viðstaddra.