Ilkay Gündogan, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester City, gæti gengið til liðs við Arsenal í sumar.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Mikel Arteta, stjóri Arsenal, ætlar að styrkja miðsvæðið hjá sér í sumar.
Svissneski miðjumaðurinn Granit Xhaka er á förum frá félaginu en ensku miðjumennirnir Declan Rice og Mason Mount hafa báðir verið orðaðir við Arsenal að undanförnu.
Talið er næsta víst að Rice muni yfirgefa West Ham í sumar en hann kostar í kringum 120 milljónir punda.
Þá verður Mount samningslaus sumarið 2024 og hefur hann ekki viljað skrifa undir nýjan samning við Chelsea og enska félagið mun því að öllum líkindum selja hann í sumar.
Gündogan verður samningslaus í sumar en hann hefur einnig verið orðaður við Barcelona. Þá er ekki útilokað að hann verði áfram í herbúðum City á næstu leiktíð.