Forráðamenn enska knattspyrnufélgsins Liverpool þurfa að borga 60 milljónir punda fyrir argentínska miðjumanninn Alexis Mac Allister.
Það er argentínski miðillinn La Nacion sem greinir frá þessu en Mac Allister, sem er 24 ára gamall, hefur verið sterklega orðaður við enska félagið undanfarnar vikur.
Hann er samningsbundinn Brighton í ensku úrvalsdeildinni en argentínski miðillinn TyC Sports greindir frá því á dögunum að leikmaðurinn væri búinn að semja um kaup og kjör við félagið.
Mac Allister hefur komið við sögu í 33 leikjum með Brighton á tímabilinu þar sem hann hefur skorað 10 mörk. Þá varð hann heimsmeistari með Argentínu í desember á síðasta ári.