Newcastle United og Leicester City gerðu markalaust jafntefli þegar þau áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.
Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið þar sem jafnteflið þýðir að Newcastle er formlega búið að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili þar sem liðið getur ekki endað neðar en í fjórða sæti deildarinnar.
Leicester fór upp fyrir Leeds United en bæði lið eru þó enn í fallsæti með 31 stig, tveimur stigum á eftir Everton í síðasta örugga sætinu.
Leicester er hins vegar með betri markatölu og því í 18. sæti á meðan Leeds er sæti neðar.