Carragher biður leikmann United afsökunar

Lisandro Martínez meiddist á ökkla í apríl og hefur ekki …
Lisandro Martínez meiddist á ökkla í apríl og hefur ekki leikið síðan. AFP/Darren Staples

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool og núverandi sparkspekingur hjá Sky Sports, hefur beðið Lisandro Martínez, miðvörð Manchester United, afsökunar á ummælum sem hann lét falla um leikmanninn í upphafi tímabilsins.

Martínez, sem er 25 ára gamall, gekk til liðs við United frá Ajax síðasta sumar fyrir tæplega 47 milljónir punda.

Miðvörðurinn er 175 sentímetrar á hæð og talaði Carragher um það í upphafi tímabilsins að hann væri of lágvaxinn til þess að spila í deildinni en annað kom á daginn.

United saknar hans mikið

„Þetta snerist aldrei um Martínez sem leikmann heldur þá staðreynd að enska úrvalsdeildin væri erfiður vettvangur fyrir lágvaxna miðverði,“ sagði Carragher á Sky Sports.

„Það sem gerir góða leikmenn góða er sú staðreynd að þeir eru góðir í því að fela veikleikana sína og Martínez hefur svo sannarlega gert það. Hann er meiddur núna og United saknar hans sárt enda frábær á boltanum og einstaklega góður í návígjum.

Ég vil biðja hann afsökunar á ummælum mínum í upphafi tímabilsins og stuðningsmenn United mega endilega hætta að senda mér skilaboð núna vegna þess sem ég sagði um hann í ágúst,“ bætti Carragher við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert