Southampton, botnlið ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla, er komið langt með að ráða nýjan knattspyrnustjóra fyrir komandi átök í B-deildinni á næsta ári.
BBC Sport greinir frá því að samningaviðræður við Russell Martin, knattspyrnustjóra Swansea City í B-deildinni, séu langt á veg komnar.
Southampton féll úr úrvalsdeildinni fyrir nokkru síðan eftir afleitt gengi á tímabilinu, þar sem Ralph Hasenhüttl og Nathan Jones voru báðir reknir úr starfi knattspyrnustjóra og ekkert lagaðist þegar bráðabirgðastjórinn Rúben Selles tók við.
Félagið mun greiða Swansea bætur fyrir Martin, sem er samningsbundinn velska félaginu til sumarsins 2024, og mun hluti þjálfarateymis hans fylgja Skotanum á suðurströnd Englands.
Undir stjórn Martins hafnaði Swansea í 15. sæti í B-deildinni á síðasta ári og í 10. sæti á nýafstöðnu tímabili.