James Milner rær á önnur mið þegar samningur hans við enska knattspyrnufélagið Liverpool rennur sitt skeið í sumar.
Hinn 37 ára gamli Milner vann flesta bikara sem hægt var að vinna á átta árum hjá Liverpool og lét ekki sitt eftir liggja.
Caoimhe O’Neill, íþróttablaðamaður hjá The Athletic, fór yfir feril hans hjá Liverpool í grein og vakti um leið athygli á snertingakorti (e. touch map) Milners á árunum átta, þar sem sést hvar hann snerti boltann í leikjum með liðinu.
Óhætt er að segja að Englendingurinn vinnusami hafi verið út um allt á vellinum hjá þeim rauðklæddu enda fjölhæfur með eindæmum.
Flesta leiki spilaði Milner á miðri miðju en næstflesta í vinstri bakverði. Þá lék hann fjölda leikja í hægri bakverði og lét einnig til sín taka á báðum köntum og sem varnartengiliður.
Vænta má þess að Milner spili sinn síðasta leik með Liverpool þegar liðið heimsækir Southampton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar næstkomandi sunnudag.