Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United ætla að gera hvað þeir geta til að ganga frá kaupum á Harry Kane frá Tottenham sem fyrst þegar félagaskiptaglugginn opnast. Myndi það auðvelda viðræður við Lundúnafélagið.
The Guardian greinir frá. Kane, sem er landsliðsfyrirliði Englands og einn besti framherji heims, hefur leikið með Tottenham allan ferilinn. Hann gæti skipt yfir til United, eftir enn eitt titlalausa tímabilið hjá Tottenham.
Kane er samningsbundinn Tottenham til næsta árs og því freistandi fyrir félagið að selja hann í sumar, til að koma í veg fyrir að hann yfirgefi félagið á frjálsri sölu eftir næsta tímabil.
The Guardian greinir frá að United sé einnig að skoða stöðu Victors Osimhen hjá Napólí, fari svo að samkomulag náist ekki við Tottenham. Þá hefur félagið einnig áhuga á Mason Mount, leikmanni Chelsea.