Ég á svolítið erfitt með mig um þessar mundir. Ástæðan fyrir því er sú að eftirlætisleikmaður minn, Roberto Firmino, er að yfirgefa Liverpool, félagið sem ég styð á Englandi.
Allt hefur sitt upphaf og endi og kveðjustundir knattspyrnumanna í fremstu röð eru vitanlega óumflýjanlegar.
Það breytir því ekki að tilhugsunin um Liverpool án Firminos er sár. Enginn einn leikmaður endurspeglar síðustu átta ár, árin sem Jürgen Klopp hefur verið knattspyrnustjóri, jafn vel og Brassinn skælbrosandi.
Án hans hefði liðið ekki spilað „þungarokksfótbolta“ með tilheyrandi látum fyrstu árin. Án hans hefði Liverpool ekki orðið jafn fært í að spila árangursríkan hápressubolta.
Loks hefðu fáir, ef einhverjir, af einkar sætum sigrum þar sem nánast allir bikarar sem í boði voru unnust litið dagsins ljós ef ekki hefði verið fyrir Firmino.
Með Mohamed Salah og Sadio Mané myndaði hann um margra ára skeið einhverja mögnuðustu sóknarlínu sem sést hefur.
Þótt Salah og Mané hafi skorað fleiri mörk var það mjög gjarna ótrúlegri óeigingirni Firminos að þakka að þeir komust á blað. Ég hef aldrei séð sóknarmann sem er jafn óeigingjarn og hann.
Bakvörð Gunnars má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.