Guardiola: Miklu harðar tekið á kynþáttaníði á Englandi

Pep Guardiola faðmar Rico Lewis þegar Man. City fagnaði Englandsmeistaratitlinum …
Pep Guardiola faðmar Rico Lewis þegar Man. City fagnaði Englandsmeistaratitlinum um síðustu helgi. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, segir að spænska 1. deildin geti dregið lærdóm af ensku úrvalsdeildinni þegar kemur að því að taka á kynþáttaníði.

Guardiola var á blaðamannafundi í dag spurður út í kynþáttaníð sem Vinícius Júnior, leikmaður Real Madríd, hefur stöðugt þurft að sæta á yfirstandandi tímabili.

Skortur á viðbrögðum spænsku deildarinnar við slíku níði í garð Brasilíumannsins hefur víða verið gagnrýndur.

„Þeir [spænska deildin] ættu að læra af ensku úrvalsdeildinni. Hér eru þeir svo strangir þegar kemur að því að berjast gegn kynþáttaníði. Þeir vita hvað þeir þurfa að gera. Þetta er vandamál alls staðar. Fyrir allar kynslóðir alls staðar,“ sagði Guardiola.

„Forfeður okkar komu af farandfólki, upplifðu stríð og þurftu að flýja lönd sín, stofna til fjölskyldu á öðrum stað og snúa aftur þangað sem þeir fæddust.

Vandamálið er að það er kynþáttaníð alls staðar. Við þurfum öll að koma fram við allt fólk eins og manneskjur en við erum langt frá því. Vonandi getur þetta batnað á Spáni en ég er ekki bjartsýnn á það,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert