Enska knattspyrnusambandið hefur greint frá ástæðunum fyrir því að Ivan Toney, sóknarmaður Brentford, var úrskurðaður í átta mánaða bann vegna ítrekaðra brota á veðmálareglum ensku úrvalsdeildarinnar.
Þar kemur fram að Toney hafi verið greindur sem spilafíkill sem hafi 13 sinnum veðjað gegn sínu eigin liði, 11 sinnum gegn Newcastle United og tvisvar gegn Wigan Athletic, þar sem hann var að láni.
Toney var á mála hjá Newcastle United fram til ársins 2018 og veðjaði alls sjö sinnum á að liðið myndi tapa leikjum sínum.
Sambandið tók þó skýrt fram að hann hafi ekki sjálfur tekið þátt í neinum af leikjunum sjö, þar sem Toney hafi verið á láni annars staðar.
Tvö af veðmálunum 13 hafi snúið að leik Wigan og Aston Villa í ensku B-deildinni þegar hann var að láni hjá Wigan en að hann hafi sömuleiðis ekki tekið þátt í þeim leik.
„Það eru engin sönnunargögn um að herra Toney hafi reynt eða hafi einu sinni verið í aðstöðu til þess að hafa áhrif á að hans eigin lið myndu tapa þegar hann veðjaði á að þau myndu ekki vinna þar sem hann var ekki í leikmannahópum eða gjaldgengur til að spila á þeim tímapunktum,“ sagði í greinargerð sambandsins.
Einnig kemur fram að Toney hafi viðurkennt að hafa logið að enska sambandinu í fyrsta viðtali sínu vegna málsins, þar sem hann hafi farið fram hjá reglum deildarinnar með því að notast við aðganga annarra á veðmálasíðum til þess að geta veðjað.
Toney veðjaði 15 sinnum á leiki sem hann tók sjálfur þátt í. Sneru þau veðmál að því að hann myndi sjálfur skora í níu mismunandi leikjum.
Enska knattspyrnusambandið fór upphaflega fram á að Toney yrði úrskurðaður í 15 mánaða bann en minnkaði það í átta mánuði í kjölfar þess að hann var greindur með spilafíkn og viðurkenndi sök í öllum 262 brotum sínum á veðmálareglum úrvalsdeildarinnar.