Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir liðið þurfa á betri leikmönnum að halda vilji það halda áfram að bæta sig og eiga möguleika á að berjast um Englandsmeistaratitilinn.
Man. United tryggði sér í gærkvöldi sæti í Meistaradeild Evrópu og þrátt fyrir að hafa leikið vel á tímabilinu á heildina litið var liðið aldrei í neinni titilbaráttu í ensku úrvalsdeildinni
„Þetta er góður grunnur til þess að byggja ofan á en við þurfum að hækka viðmiðin og kröfurnar verða að aukast. Við þurfum að vinna með þessum leikmannahóp í sumar en við þurfum einnig að styrkja hópinn í leikmannaglugganum.
Við viljum berjast um titilinn en það verður að vera raunhæft. Það snýr að því sem er til staðar. Á þessari stundu erum við langt frá því þannig að við höfum verk að vinna.
En við þurfum á betri leikmönnum að halda ef við viljum keppa um stærstu verðlaunin,“ sagði ten Hag á blaðamannafundi eftir 4:1-sigur á Chelsea í úrvalsdeildinni í gærkvöldi.