Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er á óskalista enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal.
Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins en rætt var um möguleg félagaskipti Glódísar til Englands í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins, í gær.
Glódís Perla, sem er 27 ára gömul, gekk til liðs við Bayern München í Þýskalandi frá Rosengård í Svíþjóð sumarið 2021.
Hún hefur verið lykilmaður í liði Bæjara á leiktíðinni en liðið er með tveggja stiga forskot á Wolfsburg á toppi þýsku 1. deildarinnar þegar ein umferð er eftir af tímabilinu.
Glódís Perla var frábær fyrir Bayern í viðureign liðsins gegn Arsenal í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar þar sem Arsenal hafði betur, 2:1.
Forráðamenn Arsenal eiga nú í viðræðum við þýska félagið um kaup á íslenska miðverðinum en samingur hennar í Þýskalandi rennur út næsta sumar.
Arsenal er sem stendur í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og getur ekki endað ofar þegar ein umferð er eftir af tímabilinu en liðið er eitt það best mannaða í heiminum í dag.
Mikil meiðsli hafa herjað á liðið í allan vetur og eru ensku landsliðskonurnar Leah Williamson og Beath Mead báðar frá vegna krossbandsslita, sem og hollenska landsliðskonan Vivianne Miedema.
Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan en þátturinn er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum.