Everton bjargaði sér og felldi Leeds og Leicester

Liam Cooper, fyrirliði Leeds, svekktur í dag.
Liam Cooper, fyrirliði Leeds, svekktur í dag. AFP/Oli Scarff

Everton hélt sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta og sendi Leeds og Leicester niður í B-deildina með 1:0-heimasigri á Bournemouth á Goodison Park í dag.

Everton var í bestu stöðunni af liðunum þremur og nægði sigur í dag. Mark frá Abdoulaye Doucouré á 57. mínútu nægði bláa liðinu í Liverpool að lokum.

Leicester gerði sitt og vann 2:1-heimasigur á West Ham. Harvey Barnes kom Leicester yfir á 34. mínútu og Wout Faes bætti við öðru marki á 62. mínútu. Pablo Fornals minnkaði muninn fyrir West Ham á 79. mínútu og þar við sat. Sigurinn nægði Leicester hins vegar ekki og er liðið fallið.

Leicester er fallið niður í B-deild.
Leicester er fallið niður í B-deild. AFP/Darren Staples

Leeds þurfti að vinna Tottenham til að eiga einhvern möguleika á að halda sér uppi, en liðið fékk skell á heimavelli sínum, 4:1. Harry Kane skoraði fyrsta markið strax á 2. mínútu og Pedro Porro bætti við öðru marki á 47. mínútu.

Jack Harrison lagaði stöðuna fyrir Leeds á 67. mínútu, en aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Kane aftur. Lucas Moura bætti svo við fjórða markinu í uppbótartíma og þægilegur sigur Tottenham staðreynd.

Markið sem tryggði Everton áframhaldandi veru í ensku úrvalsdeildinni.
Markið sem tryggði Everton áframhaldandi veru í ensku úrvalsdeildinni. AFP/Peter Powell

Þá vann Aston Villa 2:1-heimasigur á Brighton. Douglas Luiz og Ollie Watkins komu Villa í 2:0, áður en Deniz Undav minnkaði muninn á 38. mínútu og þar við sat. Með sigrinum tryggði Aston Villa sér sæti í Sambandsdeildinni. Brighton fer í Evrópudeildina, en Tottenham verður ekki í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Lokaumferðin í enska boltanum opna loka
kl. 17:31 Leik lokið Þá er búið að flauta til leiksloka á Goodison Park og Everton heldur sæti sínu, en Leicester fellur með Leeds og Southampton.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert