Sheffield Wednesday og Barnsley áttust við í úrslitaleik umspils C-deildar í enska fótboltanum í dag á Wembley-leikvanginum í London.
Hádramatískt mark frá Josh Windass á þriðju mínútu uppbótartíma framlengingar reyndist sigurmark leiksins og fögnuðu leikmenn og stuðningsmenn Sheffield Wednesday sæti sínu í B-deildinni að ári.
Adam Phillips, leikmaður Barnsley, var rekinn af velli eftir groddaralega tæklingu á 49. mínútu leiksins. Eftir það reyndi Barnsley að verjast með kjafti og klóm og var eina upplegg þeirra að komast í vítaspyrnukeppni.
Það virtist ætla að takast en á 123. mínútu leiksins, í uppbótartíma framlengingar, skoraði Josh Windass með skalla og braut um leið hjörtu leikmanna og stuðningsmanna Barnsley.
Sheffield Wednesday er fornfrægt félag á Englandi sem stofnað var árið 1867 og var eitt af stofnfélögum ensku úrvalsdeildarinnar árið 1992.
Liðið leikur heimaleiki sína á Hillsborough Stadium sem er helst þekktur fyrir hræðilegt slys árið 1989 þegar 97 stuðningsmenn Liverpool krömdust til dauða þegar liðið spilaði leik í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar gegn Nottingham Forest.