Mauricio Pochettino, sem tekur við starfi knattspyrnustjóra Chelsea í sumar, hefur ekki áhuga á að halda portúgalska sóknarmanninum Joao Felix hjá félaginu.
Felix kom til Chelsea í janúar í láni frá Atlético Madrid og enska félagið hefur forkaupsrétt á honum að þessu tímabili loknu.
Enrique Cerezo, forseti Atlético, sagði við fjölmiðilinn AS í Madríd að félaginu hefðu borist þau skilaboð frá Chelsea í gær að Englendingarnir vildu ekki halda Felix í sínum röðum.
„Við vissum þetta fyrir tæpum sólarhring. Hann kemur aftur hingað og svo kemur framhaldið í ljós. Við höfum engin plön varðandi hann,“ sagði Cerezo.
Felix varð fimmti dýrasti knattspyrnumaður heims árið 2019 þegar Atlético keypti hann af Benfica fyrir 130 milljónir evra. Hann hefur skorað 34 mörk í 131 leik fyrir Atlético og varð spænskur meistari með félaginu árið 2021.
Felix skoraði fjögur mörk í sextán leikjum Chelsea í ensku úrvalsdeildinni eftir að hann kom þangað í janúar.