Franski knattspyrnumaðurinn Kurt Zouma, varnarmaður West Ham United, hefur tjáð sig um það þegar hann níddist á gæludýraketti sínum og hlaut dóm fyrir.
Myndskeið þar sem Zouma sést níðast á ketti sínum með því að sparka í hann og slá fór í dreifingu á samfélagsmiðlum á síðasta ári.
Hann var í kjölfarið ákærður fyrir dýraníð og dæmdur til þess að sinna 180 klukkustunda samfélagsþjónustu. Auk þess var Zouma meinað að eiga ketti sem gæludýr um fimm ára skeið.
Í samtali við Evening Standard gekkst hann fúslega við því að hafa gert slæm mistök en að það að spila fótbolta hafi komið honum í gegnum erfiðleikana sem fylgdu, þar sem stuðningsmenn andstæðinga West Ham hafa til að mynda gert gys að honum meðan á leikjum hefur staðið.
„Þetta hefur verið erfiður tími fyrir mig og fjölskyldu mína. Við höfum gengið í gegnum ýmislegt. Ég gerði mistök og ég veit að þetta var heimskulegt.
Ég verð að biðjast aftur afsökunar á því sem ég gerði, en lífið snýst um að halda áfram.
Auðvitað hafði þetta áhrif á mig, en við erum knattspyrnumenn og ég er mjög lánsamur að geta fengist við það sem ég elska og haldið áfram að spila fótbolta,“ sagði Zouma.