Nágrannaliðin Manchester City og Manchester United mættust í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í fótbolta í dag. Það verður fagnað í bláa hluta Manchester-borgar í kvöld því City vann leikinn, 2:1.
Þetta var í fyrsta sinn í sögu ensku bikarkeppninnar sem þessi nágrannalið mætast í sjálfum úrslitaleiknum.
Leikurinn var ekki nema þrettán sekúndna gamall þegar fyrsta mark leiksins kom. City tók miðju, boltinn barst til baka á Stefan Ortega, markvörði liðsins, sem sparkaði honum fram. Þar vann Erling Haaland skallaeinvígi áður en Kevin De Bruyne gerði það sama, af Belganum hrökk boltinn fyrir Ilkay Gündogan sem lét vaða að marki. Þjóðverjinn tók boltann á lofti og skot hans var gjörsamlega óverjandi fyrir David de Gea, markvörð Manchester United, og City komið yfir, 1:0.
Manchester United virkaði slegið yfir þessari byrjun og City var líklegra til að bæta við marki en United náði að lifa af næstu fimmtán mínúturnar, sem var mikilvægt.
Það var síðan Bruno Fernandes sem að jafnaði fyrir Manchester United á 33. mínútu þegar hann skoraði úr vítaspyrnu. Vítið var dæmt eftir að Aaron Wan-Bissaka skallaði boltann í hendina á Jack Grealish innan vítateigs. Paul Tierney, dómari leiksins, ætlaði ekki að dæma vítaspyrnu en David Coote, VAR dómari, sendi hann í skjáinn og vítaspyrnan varð niðurstaðan. Bruno skoraði úr spyrnunni af miklu öryggi og staðan orðin 1:1.
Ilkay Gündogan skoraði annað mark sitt í leiknum á 51. mínútu. Kevin De Bruyne tók þá aukaspyrnu úti á hægri kanti, Belginn sendi boltann út á vítateigslínuna þar sem Gündogan beið eftir boltanum. Þjóðverjinn tók boltann aftur á lofti, viðstöðulaust en nú með vinstri fæti. Skot hans var laust en hnitmiðað úti við stöng og boltinn söng í netinu. City-menn komnir yfir, 2:1.
United reyndi hvað það gat til að jafna leikinn og komst liðið nálægt því í uppbótartíma þegar boltinn datt fyrir Raphael Varane inni á markteig Manchester City. Frakkinn átti skot að marki sem Stefan Ortega varði vel og endaði boltinn ofan á þverslánni áður en hann fór aftur fyrir endamörk.
Þetta var það síðasta sem gerðist marktækt í leiknum og er Manchester City enskur bikarmeistari og draumurinn um þrennuna lifir enn.