Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester City eiga nú í viðræðum við Chelsea um kaup á króatíska miðjumanninum Mateo Kovacic.
Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Kovacic, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Chelsea til sumarsins 2024.
Hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning á Stamford Bridge og því eru forráðamenn Chelsea sagðir tilbúnir að selja hann í sumar fyrir rétta upphæð.
Kovacic hefur einnig leikið með Real Madrid og Inter Mílanó á ferlinum en alls á hann að baki 221 leik fyrir Chelsea þar sem hann hefur skorað sex mörk og lagt upp önnur 15.
City þarf að borga í kringum 30 milljónir punda fyrir leikmanninn sem á að baki 93 A-landsleiki fyrir Króatíu.