Enski miðjumaðurinn Declan Rice segir að aðrir muni ákveða framtíð sína í knattspyrnuheiminum.
Declan Rice varð í gær fyrsti fyrirliði West Ham til að lyfta bikar í 43 ár, er hann lyfti Sambandsdeildarbikarnum eftir 2:1-sigur West Ham á Fiorentina í úrslitaleik keppninnar.
Hann var í skýjunum með sigurinn og sagði að liðið hefði haft sanna trú. „Ég er ekki bara ánægður með þetta fyrir okkur og þjálfarann, heldur líka fyrir þessa aðdáendur, starfsfólkið okkar, enginn veit þá vinnu sem þau leggja á sig. Ég er svo, svo ánægður.“
Spurður út í framtíð sína sagðist Rice ekki geta sagt til um hana.
„Ég veit í rauninni ekkert hvað er að gerast á þessari stundu, ef ég er alveg heiðarlegur. Að lesa vangavelturnar sjálfur er eiginlega orðið frekar leiðinlegt. Hver veit hvað er að fara að gerast?
Það er mikill heiður að vera eftirsóttur af mörgum félögum en merkið á brjósti mér er West Ham. Ég á enn tvö ár eftir af samningi mínum og það er komið undir fólkinu fyrir ofan að ákveða framtíð mína,“ sagði Rice í samtali við Skysports, en hann hefur verið sterklega orðaður við Arsenal. Manchester United, Chelsea og Bayern München eru einnig öll sögð vera í kapphlaupinu.