Íhuga að lána Greenwood utan Englands

Mason Greenwood.
Mason Greenwood. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United íhugar nú að lána Mason Greenwood út fyrir landsteinana á næsta tímabili.

Greenwood, sem er 21 árs sóknarmaður, hefur ekki spilað fyrir Man. United síðan hann var handtekinn í janúar á síðasta ári, grunaður um tilraun til nauðgunar, líkamsárás og þvingandi hegðun gagnvart kærustu sinni.

Fyrir nokkrum mánuðum var málið látið niður falla en Greenwood er enn í banni hjá félaginu á meðan það framkvæmir eigin rannsókn á málinu.

Daily Mail greinir frá því að United hafi nú í hyggju að lána sóknarmanninn utan Englands, þar sem Ítalía, Spánn og Tyrkland eru þrír líklegustu áfangastaðirnir.

Greenwood á enn tvö ár eftir af samningi sínum hjá Man. United og nú þegar tímabili liðsins er lokið má vænta þess að niðurstaða úr rannsókn félagsins fáist fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert