Frá því að keppni á Evrópumótum var tekin upp árið 1955 hefur aðeins einu ensku félagi tekist að vinna þrefalt, það er deild og bikar heima fyrir og Evrópukeppni meistaraliða eða Meistaradeildina, eins og mótið heitir núna. Það var Manchester United árið 1999 undir stjórn Sir Alex Fergusons.
Afrekið var af þeim toga að maður bjóst ekkert endilega við að upplifa það aftur. Nú, 24 árum síðar, eru nágrannar United, Manchester City, á þröm þessa þrekvirkis. Hafa þegar saumað saman deild og bikar og mæta Inter frá Mílanó í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld, laugardagskvöld, á Atatürk-ólympíuleikvanginum í Istanbúl eða Atatürk Olimpiyat Stadyumu, eins og hann nefnist á móðurmálinu.
Sú staðreynd að þetta hafi aðeins gerst einu sinni á 68 árum segir allt sem segja þarf um ensku knattspyrnuna. Mótspyrnan er einfaldlega meiri en gengur og gerist. Þannig hafa félög frá öðrum löndum unnið þrennuna eftirsóttu samtals átta sinnum, þar af Barcelona frá Spáni [2008-09 og 2014-15] og Bayern München frá Þýskalandi [2012-13 og 2019-20] í tvígang. Ajax frá Hollandi gerði þetta 1971-72 og landar þeirra PSV Eindhoven 1987-88. Eina ítalska liðið til að vinna þetta afrek er einmitt Inter, 2009-10.
Fyrsta félagið sem vann þrefalt var Celtic frá Skotlandi, 1966-67. Liðið er þekkt undir nafninu Lissabonljónin en þar fór úrslitaleikurinn fram. Celtic lét raunar ekki þar við sitja, heldur vann líka deildarbikarinn heima. Sumsé fernu – eitt félaga í Evrópu. Erfitt er að eiga við það met enda deildarbikar til í fáum löndum. Manchester City gæti þó gert það að markmiði sínu næsta vetur. Liðið datt óvænt út í átta liða úrslitum deildarbikarsins að þessu sinni – gegn Southampton. Sem síðar féll úr úrvalsdeildinni.
Manchester City hefur borið ægishjálm yfir önnur lið í Englandi undanfarinn áratug eða svo; hefur sjö sinnum orðið meistari á síðustu 12 árum og fimm sinnum á síðustu sex, þar af nú þrjú ár í röð. Engu ensku félagi hefur tekist að vinna deildina fjögur ár í röð. Það gæti breyst að ári.
Þrátt fyrir alla þessa velgengni á heimagrund hefur City ekki enn tekist að landa þeim eyrnastóra, eins og Evrópubikarinn er gjarnan kallaður. Komst næst því fyrir tveimur árum; laut þá í gras gegn öðru ensku liði, Chelsea, í sjálfum úrslitaleiknum. Það voru sár vonbrigði. Þetta er í annað sinn sem City leikur til úrslita.
Evrópubikarinn hefur lengi verið hið heilaga gral í huga Peps Guardiola, knattspyrnustjóra City, enda engin leið að máta piltana hans við bestu lið enskrar sparksögu fyrr en hann er kominn í hús. Sjálfur varð hann einu sinni Evrópumeistari með Börsungum sem leikmaður og tvisvar sem knattspyrnustjóri, síðast 2012. Það er býsna langur tími fyrir mann sem vanur er að ryksuga upp flesta titla í augsýn, hvort sem það er á Spáni, í Þýskalandi eða Englandi.
Stuðlar á ósigur City eru almennt háir. En það verður, merkilegt nokk, annað lið á vellinum – Inter frá Mílanó. Og miði er sannarleg möguleiki. Spyrjið bara manninn sem sópaði til sín margföldum lottópottinum um daginn. Inter eltist ekki við þrennuna, heldur tvennuna; liðið varð ítalskur bikarmeistari í vor. Það hafnaði hins vegar í þriðja sæti Seríu A, heilum 18 stigum á eftir meisturum Napoli. Fær þó að vera með í Meistaradeildinni að ári, sama hvernig fer í kvöld.
Það urðu hvorki Bæjarar né Madrídingar á vegi þeirra í útsláttarkeppninni til Istanbúl og almennt talað um léttari leiðina. En Inter þurfti þó að hafa fyrir sigrum sínum. Liðið hafnaði í öðru sæti í sínum riðli, langt á eftir títtnefndum Bæjurum. Skildi þó Börsunga eftir í sannkölluðum dauðariðli. Inter marði svo Porto 1:0 í 16 liða úrslitum. Enn var glímt við Portúgali í átta liðunum, nú Benfica, sem Inter lagði samtals 5:3. Þá var komið að grannaslag í undanúrslitum, gegn AC Milan. Það varð á endanum auðveldasta viðureignin, 3:0 yfir leikina tvo. Þannig að liðið hefur verið vaxandi.
Fyrir utan þrennuna 2010 hefur Inter lyft Evrópubikarnum tvisvar, 1964 og 1965. Liðið lék einnig til úrslita 1967, gegn Celtic, og 1972, gegn Ajax – sem bæði unnu þá þrennuna. Inter hefur sumsé aldrei tapað úrslitaleik öðruvísi en að hitt liðið hafi unnið þrennuna. Það ættu að vera góð tíðindi fyrir City.
Nánar er fjallað um úrslitaleik Meistardeildar Evrópu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.