Franski knattspyrnumaðurinn William Saliba hefur samþykkt nýjan fjögurra ára samning hjá Arsenal.
Það er hinn afar áreiðanlegi David Ornstein sem greinir frá en það á aðeins eftir að ganga frá pappírunum.
Saliba, sem er 22 ára gamall, var magnaður í vörn Arsenal-liðsins á nýliðnu tímabili og fór allt úrskeiðis hjá Norður-Lundúnafélaginu eftir að hann meiddist, en liðið missti gott forskot sitt niður á toppi deildarinnar.
Frakkinn átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum hjá Arsenal, og því forgangsatriði hjá félaginu að festa hann niður næstu árin. Á komandi dögum er svo búist við því að Arsenal fari að bjóða í Declan Rice, miðjumann West Ham.