Skoski knattspyrnustjórinn David Moyes verður áfram hjá enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham.
Frá þessu greinir SkySports en Moyes stýrði liðinu til sigurs í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar á miðvikudaginn var, sem var fyrsti titill félagsins í 43 ár.
Moyes á að hafa talað við eiganda félagsins David Sullivan í gær þar sem þeir tveir ræddu Sambandsdeildarsigurinn, plön félagsins í sumar og framtíð stjórans. Skotinn á eitt ár eftir af samningi sínum í Lundúnum og er búist við því að hann verði þar, allavega þangað til.