Ancelotti kærir Everton

Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti. AFP/Javier Soriano

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, hefur kært enska félagið Everton, þar sem hann stýrði karlaliðinu um 18 mánaða skeið á árunum 2019 til 2021.

The Guardian greinir frá.

Kæran snýr að vanefndum vegna almennra viðskiptasamninga og fyrirkomulags þeirra.

Málið verður rekið fyrir hæstarétti í Lundúnum en í dómsskrá koma ekki fram frekari upplýsingar um kæruna, sem lögfræðingar Ancelotti lögðu fram fyrir hönd hans á föstudag.

Um enn eitt áfallið gæti verið að ræða fyrir Everton, sem hefur átt í fjárhagsvandræðum undanfarin ár og gæti þurft að selja sterka leikmenn í sumar þrátt fyrir að hafa haldið sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert